Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Lífshættulegt að bera út Morgunblaðið!!

Það er líshættulegt að bera út Morgunblaðið.  Fyrir nokkrum dögum var dóttir mín að bera út Blaðið og Morgunblaðið í 101. Var hún að ganga yfir götu, kl. var á milli sex og hálfsjö, þegar bíll kemur á ofsahraða og náði hann að keyra yfir tærnar á vinstri fæti hennar. Það munaði svo sannarlega ekki miklu að hún yrði undir bílnum. Hún var í algeru sjokki og náði þar af leiðandi ekki bílnúmerinu. Guði sé lof fyrir að þarna fór ekki verr. Bílstjórinn hlýtur að hafa tekið eftir þessu en eiginhagsmunir hans hljóta að hafa verið í fyrirrúmi hjá honum. Annars er orðið áberandi hversu margt fólk er á vappi svona snemma morguns, einkum um helgar, í mismunandi ásigkomulagi. Hefur hún oftar en ekki þurft að forða sér undan blindfullum köllum og kellingum sem ennþá hafa ekki fengið nóg af nætursvallinu. Fólk hefur ekki orðið neinn áhuga á að vera inni á börunum sem ennþá eru opnir, því allir eru úti að reykja. Félagslega er það bæði gott og vont, fólk sem aldrei annars myndi hittast, nær saman í reykingahópnum en það getur líka slest upp á vinskapinn all illilega. Íslenska þjóðin er um margt undarleg þjóð. Þegar aðrar þjóðir sofa vært, enda búnar að sinna félagslega þættinum daginn áður með því að hittast á kaffihúsum eða á götum úti, þá eigum við Íslendingar eftir allan pakkann og sumir eru að fram á morgun. En við erum nú líka þekkt fyrir það að snúa sólarhringnum við og mæta svo drulluþreytt í vinnuna, hálfsofandi við stýrið og afköstin í vinnunni eftir því.

Fyrsta vísan í ferskeytlu og limrukeppninni

Jæja, þá hefur fyrsta vísan borist . Hún var víst samin fyrir þrjátíu árum eða svo en það skiptir engu máli. Einu skilyrðin eru að þær séu frumsamdar og hafi ekki birst áður. Hún hljóðar svo:

 

Tómt er glasið, tungan þvöl.
Tómur hugur, golan svöl.
Innri maður, er svo öl.
Eilífðin er ætíð föl.


Minni á ferskeytlu og limrukeppnina. Glæsileg verðlaun í boði

Ég minni á ferskeytlu og limrukeppnina sem er í gangi á  kaffi.blog.is  Vegleg verðlaun eru í boði, kaffimálverk eftir Berg Thorberg! 1.--2.-- og 3. verðlaun. Það er alltaf rétti tíminn til að yrkja og tilefnin geta verið mörg. Allir geta tekið þátt og sent efni á thorberg@thorberg.is sem verður svo birt á blogginu mínu. Atkvæðagreiðsla um bestu vísuna eða limruna hefst svo eftir 14 daga, héðan í frá. Núna er tíminn að opna skúffurnar, kafa djúpt eða bara láta flakka. Koma svo!!!!!

Bestu kveðjur,

Bergur Thorberg


Verðlaunasamkeppni um bestu eða hnyttnustu ferskeytluna og / eða limruna. Þrenn verðlaun í boði. Kaffimálverk á striga eftir Berg Thorberg

Kæru vinir. Ég hef ákveðið að feta í fótspor ýmissa mér viturri bloggara og efna til samkeppni um bestu eða hnyttnustu ferskeytluna eða limruna. Þið sendið mér hugverkin á  thorberg@thorberg.is og ég birti þau svo á kaffi.blog.is  Samkeppnin varir í 14 daga og þá byrjar atkvæðagreiðsla um bestu verkin, enda þá öll verkin sýnileg á síðunni minni.Velkomið er að kommentera á þær vísur eða limrur sem berast allan tímann. Verðlaun verða veitt og fyrstu verðlaun eru kaffimálverk eftir mig á striga 40cmx40cm. Önnur og þriðju verðlaun eru kaffiverk á striga 30cmx30cm. Myndir af verðlaunaverkunum verða birtar á næstu dögum Látið þið nú hendur standa fram úr ermum og heilann upp úr hálsmálinu og dælið á mig vísum.

Bestu kveðjur

Bergur Thorberg


Jói og blýanturinn

Hitti Jóa vin minn í dag á kaffihúsi. Jói er 72 ára. Jói hefur verið sjómaður allt sitt líf. Að minnsta kosti 54 ár á sjónum. Á alls kyns fleyum, smábátum og togurum. Jói sagði mér sögur af svefni, hávaða og þögn. Jói þekkti öll hljóð um borð í skipinu sínu. Hann þekkti hljóðið sem myndaðist þegar bobbingarnir skullu á kinnunginn, þegar hlerarnir voru hífðir um borð, þegar fjallhá aldan flæddi yfir hvalbakinn eða skall á skrokknum. Og drunurnar frá vélinni undir malandi. Undir öllum þessum hljóðum svaf hann Jói. Og aldrei betur. Þögnin var verst. Þá svaf ekki Jói. Þá var eitthvað að. En verst voru þó aukahljóðin, sem komu óforvarandis, óbeðin, eins og þrumur úr heiðskíru lofti. Á einni frívaktinni hrökk Jói upp með andfælum við sérkennilegt hljóð. Hann snaraði sér fram úr rúminu og reyndi að renna á hljóðið sem hafði vakið hann svo illþyrmilega. Hljóðið virtist eiga upptök sín einhvers staðar nálægt kojunni. Við hliðina á kojunni stóð lítið borð. Í borðinu var ein skúffa. Jói opnaði skúffuna.Sökudólgurinn var fundinn. Jói hafði verið að ráða krossgátu eftir að hann kom af vaktinni. Það var helvítis býanturinn sem hann hafði notað til verksins sem rúllaði fram og aftur um skúffuna. Blýanturinn vakti Jóa af værum blundi. Það eru þessi óvæntu hljóð sem halda manni vakandi. Að minnsta kosti Jóa.

Bloggbitrir og bloggvitrir

Var að lesa bloggið hennar Jennýar Önnu Baldursdóttur um bitra bloggara. Það er sama djönkið að vera bloggbitur og bloggvitur og jafnvel bloggmisvitur. Hver skyldi blogglitur þessa fólks vera? Það bloggsitur ekki í mér a.m.k. Þetta eru ansi horuð blogg og kannski ætti að gefa þeim bloggfitur? Það fer um mig bloggþytur. Þetta er mikið bloggstrit en lítið bloggvit. Svo er þetta fólk svo roggið með bloggið. Ég held það ætti að halda sig við joggið. En það heldur samt áfram með sitt blogg og ennfremur að ybba gogg. Kannski ættu bloggararnir bitru og vitru að fá sér bara litla kytru, fjarri bloggheimum en við höldum áfram og dreymum en umfram allt: GLEYMUM.

Skátamafía norðan heiða

 Nú er komið í ljós að hvorki lögreglan né bæjaryfirvöld á Akureyri hafa yfirleitt nokkuð á móti 18-23 ára fólki á tjaldstæðum bæjarins. Það eru skátarnir sem ráða þessu öllu. Heimtuðu fyrst 25 ára aldurstakmark en urðu að sætta sig við 23  árin. Enda ku þeir vera vel tengdir inn í lögregluna  á Akureyri, að minnsta kosti. Það gildir að vera ávallt viðbúinn.  Og ekki svíkur maður skátaheitið sitt.

Pungbrynja og stálgalli----- Stál og hnífur

Eftir að hafa heyrt fréttir af næturlífinu í Reykjavík og ekki síst vegna þess að gönguleiðir mínar liggja í gegnum þetta átakasvæði, hef ég ákveðið að búa til eða kaupa eftirfarandi hluti: Stálhlífar á bæði eyru, skothelda nefhettu, skotheld dökk gleraugu, riddarabrynju til að nota ef ástandið er óvenju slæmt, algerlega skothelda pungbrynju, stálplástur fyrir munninn, gervihár úr stáli, og fullkominn stálbúning, sem ég get verið í innan undir jakkafötunum. Svo þegar ég fer úr þeim, hver veit nema ég ætti meiri séns í stelpurnar. Þessi vinna verður að fara í gang strax að lokinni verslunarmannahelgi, enda kannski meiri friður þá, þegar þjóðin staulast heim til sín á brauðfótum eftir stórkostlegt vinnuframlag um helgina, sem því miður sést ekki alltaf í hinni raunverulegu launavinnu þessa fólks.

ps. Ég verð auðvitað að hafa hníf í vasanum ef ég kem honum fyrir. Sem sagt: Stál og hnífur.


Börn og foreldrar til leigu

Við sátum saman á Grand Rokk í dag, Elín Hilmarsdóttir vinkona mín og ég, ásamt fleirum. Elín kom með snilldar hugmynd sem við þróuðum svo saman félagarnir. Við hyggjumst stofna fyritæki sem leigir út börn og foreldra og það af gefnu tilefni. Til stendur að semja við áfengisverslun ríkisins um að fá þar aðstöðu innandyra fyrir starfsemina. Jú hugmyndin kviknaði vegna ákvörðunar bæjaryfirvalda á Akureyri að meina fólki frá 18 ára upp í 23 ára að tjalda á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hjá okkur verður hægt að leigja sér foreldra til að taka með sér til Akureyrar (börnin, milli 18 og 23 ára ) geta því hæglega komist inn á tjaldstæðin í fylgd með fullorðnum. Eins geta fullorðnir leigt sér börn milli 18 og 23 ára, til að geta drukkið meira og litið betur út í augum lögreglunnar á Akureyri. Þess má geta að ég hringdi sjálfur í yfirlögregluþjón á Akureyri og fékk þar hin undarlegustu svör sem ég ætla ekki að rekja hér, því það voru ekki mjög gáfuleg svör. Ég sem hélt að fólk sem væri orðið 18 ára væri sjálfráða, hvað þá 23 ára. Bara ekki á Akureyri. Eða gildir þetta bara um utanbæjarfólk? Fyrir svo utan að að ég hélt að við lifðum í frjálsu landi. Yfirlögregluþjónninn klykkti nú reyndar út með því að spyrja mig hvort við Reykvíkingar myndum taka á móti 2000 unglingum (18 ára til 23 ára) sem vildu tjalda í Laugardalnum! Ja, það er spurning. Kannski lögreglan á Akureyri sé best fallin til að taka þá ákvörðun. En ég lærði ungur að maður hætti að vera barn eða unglingur a.m.k. tvítugur. Bara ekki á Akureyri. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér þessa þjónustu geta skrifað mér á kaffi.blog.is.  Hægt er að fá tvo fyrir einn til að geta drukkið meira, ef svo ber undir.

Vinstri hægri snú

Tók leigubíl um daginn á ákveðinn stað hér í borginni og var svona nokkurn veginn viss um hvar var en hafði gleymt heimilisfanginu og leigubílstjórinn þekkti það ekki heldur.Sat ég í aftursætinu og stjórnaði ferðinni."Beint áfram hér, svo til hægri, beint áfram, hér til vinstri, beygja til hægri, nei til vinstri, svo til hægri, beint áfram, til vinstri, mitt á milli þarna beint framundan, svo í hring þarna, og út til hægri, og aftur til hægri, sérðu kröppu beygjuna þarna beint framundan, þar niður og til vinstri og rólega hérna, já til hægri, já já nú kannast ég við mig, nú er bara að hálfbeygja hér til vinstri og svo framhjá hvíta húsinu þarna og þar til hægri, þá erum við komnir"."Nei annars við erum komnir of langt. Snúðu við og næst til hægri, þá erum við komnir". Þá rann það upp fyrir mér að ég var ekki staddur í neinum fjandans leigubíl. Ég var á kafi í íslenskri pólitík. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband