Þorvaldur í Síld og Fisk kenndi mér að fara vel með peninga, eða þannig

Fór einu sinni á sýningu á verkum Jóns Engilberts sem haldin var í Englaborginni. Hitti þar aldinn mann í gráum jakkafötum með rautt bindi. Einhvern veginn æxlaðist það svo að við tókum tal saman og fylgdumst að í gegnum alla sýninguna. Fór mjög vel á með okkur. Greinilegt var að hann var vel að sér í listum og gleymdum við okkur algerlega og vissi ég ekki fyrr en við vorum staddir úti á gangstétt. Greinilegt var að beðið var eftir gamla manninum, því stór svartur eðalkaggi beið fyrir utan og bílstjóri opnaði dyr. Gamli maðurinn leit beint í augun á mér og þakkaði mér samfylgdina og sagði:"Ferð þú vel með peninga? Ég horfði á móti en fljótlega niður á gangstéttina vitandi það að sú var nú ekki alltaf raunin. Gamli maðurinn  virðist hafa skynjað hugsanir mínar og hélt áfram:  "Ég á ekki við að þú megir ekki eyða peningum, peningar eru til þess að eyða þeim". Því næst seildist hann í innri jakkavasann tók upp fallegt brúnt leðurveski , opnaði það og við mér blöstu ótrúlega slétt seðlabúnt eins og nýkomin úr prentun. "Þetta er að fara vel með peninga, ekki böggla þá saman í vasanum, krumpa þá og skemma. Berðu virðingu fyrir þeim og farðu vel með þá". Að svo mæltu kvaddi hann mig með virktum og steig inn í bílinn og óku þeir á brott. Ég hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var því við kynntum okkur ekki. Er ég opnaði Morgunblaðið nokkrum vikum síðar sá ég mynd af þessum manni við minningargrein. Það var minningargrein um Þorvald í Síld og Fisk. Ég hef reynt að fara að ráðum þessa djúpvitra manns hvað þetta varðar en eyðslusemin hefur nú ekki alltaf verið á sama plani.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband