27.1.2008 | 10:07
Einræðisherrarnir og "hetjudáðir" þeirra
Þegar ég var barn og unglingur fylgdist ég fullur áhuga með heimsfréttunum sem bárust mér nær alfarið í gegnum Ríkisútvarpið og Moggann. Tel ég mig hafa lært töluvert í landafræði á því og eins beindist áhugi minn að því hverjir fóru með völdin hverju sinni. Ég átti vin sem deildi þessu áhuga máli með mér og sátum við norður í landi í fámennu þorpi og ræddum heimsmálin löngum stundum. Státuðum við okkur af því að þekkja nánast nöfnin á öllum löndum heimsins og hverjir voru þar forsætisráðherrar, forsetar eða utanríkisráðherrar. Einn af þeim var Suharto, einræðisherra í Indónesíu. Kalda stríðið var í algleymingi, hræðslan við kjarnorkustríð mikil og einhvernveginn var Rússinn alltaf að koma. Það stóð að minnsta kosti í Morgunblaðinu og allt var satt sem þar stóð. Ekki var nú kafað djúpt í þá pólitík sem rekin var í hverju landi fyrir sig enda engar forsendur fyrir barnið að vita þar nokkuð um. Það var ekki fyrr en löngu seinna að maður fór að skoða þessar "hetjur" sínar og ein af þeim var Suharto. Þá kom í ljós ekki svo fögur mynd af manni sem fyrirskipað hafði fjöldamorð í sínu eigin landi til að viðhalda völdum sínum og sinna. Eins og fram kemur í fréttinni er talið að hann hafi fyrirskipað dráp á mörghundruðþúsundum meðbræðra sinna. Samt tókst honum að halda velli í 32 ár og síðan þegar honum loksins var bylt lifði hann í vellystingum í miðri höfuðborg landsins á því sem hann hafði stolið frá meðborgurum sínum. Aldrei var þetta neinn ljótur kall í mínum barnsaugum, ekki frekar en aðrir sem stunduðu svipaða iðju á þeim tíma. Og þeir voru margir. Það versta er að þetta virðist ekkert hafa breyst, nema síður sé, þrátt fyrir upplýsingaöldina og alla þá fréttamennsku sem nú tíðkast, ég tala nú ekki um internetið. Ennþá komast einræðisherrarnir upp með að drepa meðbræður sína og arðræna og oftar en ekki í skjóli hinna svokölluðu siðmenntuðu þjóða. Vopn ganga kaupum og sölum, enda miklir hagsmunir í húfi til að komast í auðlindir viðkomandi landa. Mútur ganga hægri vinstri, meðan pólitískar hátíðarræður svæfa almenning um víða veröld. Já, sagan endurtekur sig eins og sagt er, allt á meðan hinn almenni borgari liggur á meltunni tiltölulega sáttur við sitt. Og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr. Mannskepnan? Já, það er skrýtin skepna svo ekki sé meira sagt.
Suharto látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er rétt sem þú segir að slíkir mannóvinir ríkja enn. Það er, aftur á móti, jákvætt að menn eins og þú sjá nú í gegn um blekkingarvefinn og eruð að blogga um.
Við eigum að láta í okkur heyra og vera látlaust að minna á þessa einræðisherra og valdasjúku djöfla - það er eina leiðin sem ég sé (fyrir utan blóðuga byltingu auðvitað) sem við getum farið.
Þess vegna fagna ég þessu innleggi þínu og megi það vera til þess að fleiri taki upp ritvopnið og berjist gegn óréttlæti heimsins, vegna þess að Það fólk sem er situr kúgað undir einræðisherrum getur sjaldnast látið í sér heyra.
Lifðu heill.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 27.1.2008 kl. 10:21
Svo rétt, svo rétt. Lifðu heill sjálfur.
Bergur Thorberg, 27.1.2008 kl. 10:25
Góður texti - seinni hluti ævinnar fer ansi mikið í að leiðrétta sjálfan sig og ruglið, sem maður innbyrti á fyrri hlutanum - Kvitt og kvatt :)
Ásgeir Kristinn Lárusson, 27.1.2008 kl. 11:19
Hugsandi og yndislegur maður Bergur. Takk fyrir pistilinn og góða íhugun eftirá. Við verðum að halda umræðunni áfram og vera vakandi fyrir þessu brjáæðislega óréttlæti, sem ríkir hjá valdasjúkum einræðisherrum í heimi hér og ALDREI GLEYMA KÚGUÐUM MEÐBRÆÐRUM!
Eva Benjamínsdóttir, 27.1.2008 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.