16.7.2008 | 20:19
Hvað er ein tunna af hráolíu margir lítrar?
Þessar upplýsingar náði ég í á visindavefur.hi.is þeim ágæta vef, og geta þær kannski verið fróðlegar fyrir einhvern. A.m.k. gerði ég mér ekki grein fyrir því nákvæmlega hvað ein tunna af olíu væri margir lítrar og hversu mikið bensín hægt er að vinna úr einni tunnu af hráolíu.
"Þegar verið er fjalla um heimsmarkaðsverð á olíu í fréttum er oft sagt að olíutunnan (olíufatið eða það sem kallast oil barrel á ensku) kosti nú svo og svo mikið. Þá er miðað við tunnu sem hefur að geyma 159 lítra af hráolíu eða 42 bandarísk gallon eða 35 bresk imperial gallon. Trétunnur með þessu rúmmáli voru notaðar undir vín, bjór, viskí og fisk áður en olían kom til sögunnar. Nokkur tími leið þó þar til stærð tunnunnar féll í staðlaðar skorður upp úr 1870. Bretar nota einnig eininguna rúmmetra um olíu en í honum eru 6,29 tunnur. Olía er líka stundum mæld í tonnum
Þó að tunnan sé þannig notuð á sérstakan hátt sem mælieining eru raunverulegar tunnur misjafnar að rúmmáli. Í seinni heimstyrjöldinni var oftast talað um að olíutunnan rúmaði 200 lítra. Olíutunnur sem olíufélögin dreifa nú rúma flestar 205 til 209 lítra en þær eru að sjálfsögðu ekki viðurkenndar sem stöðluð mælieining eins og hráolíutunnan. Í dag er algengast er að olíu og bensíni sé dreift í tönkum eða geymum. Í olíutunnum hér á landi er oftast smurolía sem er notuð á vélar.
Það fer eftir ýmsu hversu mikið af bensíni er hægt að vinna úr einni tunnu af hráolíu, til dæmis gerð hráolíunnar, vinnsluaðferð og aðstæðum. Hlutfallið getur verið frá 20% og upp í 75%. Eins og fram kemur í svari Ulriku Andersen og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni 'Hvað er olíutunnan margir lítrar?' er hver tunna af hráolíu 42 bandarísk gallon eða 159 lítrar. Með dæmigerðri vinnsluaðferð á einni tunnu af hráolíu fengjust 19 gallon eða 72 lítrar af bensíni. Til að svara spurningunni má segja að rúmlega tvo lítra af hráolíu þurfi til að búa til einn lítra af bensíni.
Rúmlega tvo lítra af hráolíu þarf til að búa til einn lítra af bensíni.
Magn annarra efna sem unnin eru úr hráolíu er háð sömu þáttum og magn bensíns. Úr hráolíu er auk bensíns meðal annars unnið metan og própan, leysar af ýmsum gerðum, dísilolía og olía til húshitunar, smurolíur, vax og asfalt til malbikunar. Þannig er öll hráolían nýtt og ekkert fer til spillis".
Olíuverð heldur áfram að lækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bendi á þessa slóð þar sem sagt er hversu mikið ein tunna af hráolíu er, og hvað er hægt að vinna úr hráolíu:
http://resources.schoolscience.co.uk/SPE/knowl/4/2index.htm?oilcost.html
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.