19.7.2008 | 11:24
Þreyttur, boginn, bitur, kúgaður...... Íslendingur
Ég er sammála Bubba um að það eru alvarlegri hlutir að gerast á Íslandi en álversframkvæmdir. Sjálfur hef ég ekki verið talsmaður stóriðju á Íslandi og í verkum mínum gegnum árin hefur mátt sjá það. Það sem er alvarlegast á Íslandi í dag er að margir búa hér við fátækt, sem mjög erfitt er að komast úr. Sérhagsmunagæsla er mjög víðtæk hér á landi og hyglar hver sínum sem hefur til þess völd og oftar en ekki í krafti mikils auðs. Auðvitað ríkir visst agaleysi hér á landi og menn eyða um efni fram en það skýrir þó ekki þá sáru fátækt sem margir þurfa að búa við. Fólk festist oftar en ekki í fátækragildrum sem það losnar ekki úr. Þó við lifum við gott heilbrigðiskerfi miðað við mörg önnur lönd, þá er nú ástandið þannig að hinn "almenni borgari" stendur vart undir því að veikjast. Þá hrynur fjárhagurinn og fólk getur engan veginn staðið við skuldbindingar sínar og á fullt í fangi með að eiga í sig og á. Öryrkjar og gamalt fólk hafa árum saman lifað hér sem hálfgerðar afgangsstærðir og verið refsað fyrir það af ríkinu (okkar), að reyna að drýgja rýrar tekjur sínar og jafnvel er hoggið í lífeyri fólks við starfslok. Það ríkir kaos í þjóðfélaginu. Börnin verða afskipt vegna fjarveru foreldra sem vinna myrkranna á milli við að ná endum saman. Þeir sem á meðan eiga að sjá um börnin okkar fá ekki mannsæmandi laun, umönnunarstéttir lepja dauðann úr skel, meiri hluti þjóðfélagsins er að harka til að lifa af, með tilheyrandi þreytu, spennu, streitu og uppgjöf, sem síðan kemur fram í vonleysi og biturð og flótta frá raunveruleikanum. Að eiga þak yfir höfuðið er ekki sjálfsagt mál á Íslandi og fátækum er vísað á leigumarkað sem samræmist ekki kjörum þeirra. Fiskurinn okkar í sjónum er gefinn til séreignar og fótunum kippt undan dugnaðarfólki um allt land. Þannig má lengi telja. Þetta er ekki það sem við viljum að börnin okkar búi við í framtíðinni. Þess vegna segi ég: Styrkjum innviði þjóðfélagsins okkar, okkur sjálf, okkur öllum til hagsbóta. Stuðlum að réttlæti, samvinnu og heiðarleika. Brjótum upp sérhagsmuni og flokkshagsmuni í pólitík, okkur flestum til góðs. Þreyttur, boginn, bitur og kúgaður kennari í skóla, getur haft slæm áhrif á börnin okkar, allt eins og illa unnin álversframkvæmd getur haft hörmulegar afleiðingar fyrir landið okkar. Við verðum að reyna að kynnast sjálfum okkur og hvert öðru og reyna að draga það besta út úr báðum. Þá erum við á réttri leið.
Björk ætti frekar að syngja gegn fátækt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki þarf ég að tíunda það sem hefur verið betur sagt um rökvillu Bubba. Ekki skil ég í því að fjölmiðlar rjúki upp til handa og fóta til að birta véfréttir af munni hans líkt og Saraþústra hafi mælt.
Fátt er hinsvegar alvarlegra hér en að gera efnahaginn háðann álframleiðslu, þar sem afurðaverðið stýrist algerlega af stríðsrekstri bandamanna. Hafa menn almennt hugleitt það? Skítt með grjót og klungur á hálendi íslands.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.7.2008 kl. 11:42
Mæl heilastur, Thorberg!
Afar okkar og ömmur léku sér að legg og skel fyrir hundrað árum og margt bendir til þess, að barnabörn okkar muni gera það sama. Verður það svo slæmt?
Ásgeir Kristinn Lárusson, 19.7.2008 kl. 11:51
Fyrsta verk okkar í átt til mannlegra samfélags, er að losna sjálfstæðismenn úr stjórnsýslunni og svo halda okkur utan nýfasískra efnahagsbandalaga.
Einkavæðing heilbrigðis og félagsþjónustu er æðsta takamark þessara níðinga m.a. og eru þeir komnir vel á veg þar. Það er ein ástæða misskiptingar og misþyrmingar hinna veikustu. Pétur Blöndal telur aldraða og öryrkja bara vera drullusokka, sem ekki nenna að vinna um leið og hann spilar matador með lífeyrissjóðina. Svona karla ætti að hengja á hæsta gálga.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.7.2008 kl. 12:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.