Meeeeee........ meeeeeeee.........

Hjarðhegðun er gott og kynngimagnað orð. Þegar Össur Skarphéðinsson bendir á hjarðhegðun fjölmiðla hefur hann vissulega eitthvað til síns máls. Það sem hann vill ekki segja eða má ekki segja(stjórnmálaferils síns vegna) er, að hjarðhegðun hefur verið einkennandi fyrir íslenskt samfélag almennt í langan tíma. Stjörnudýrkun og tilheyrandi hjarðhegðun birtist okkur á öllum sviðum þjóðfélagsins og jarmið ekki síst tekið sér bólfestu inni á Alþingi, þar sem oftar en ekki er jarmað í kór á eftir misvitrum forystusauðum. Alþingismenn jarma í kór við viðskiptalífið og vice versa. Og verkalýðsforystan hefur jarmað svo árum skiptir og ekki hefur það jarm skilað íslenskri alþýðu bættum kjörum, nema síður sé. Og svo er það samtryggingin. Hið mikla þjóðfélagsmein. Menn gæta hagsmuna hvers annars. Ef þú gerir þetta fyrir mig, þá skal ég jarma með þér. Hinn "íslenski aðall" hefur skilið sig frá hjörðinni og hún má bíta gras á frostkaldri jörð, meðan aðallinn hefur komið sér þægilega fyrir í notalegum og hlýjum fjárhúsum. Stjórnmálamenn og aðrir "panta" viðtöl í fjölmiðlum, já já, en þessi kindarlega hegðan birtist okkur því miður á flestum sviðum í þjóðfélaginu og betur væri að Íslendingar almennt litu í eigin barm hvað þetta varðar. Þó fyrr hefði verið. Það fer lítið fyrir franska bændageninu á Íslandi. Því miður. Það er ekki skrýtið þó fari fram eldhúsdagsumræður á Alþingi. Það er eitt af þjóðareinkennum Íslendinga að jarma í eldhúsum og kaffistofum.
mbl.is Össur: Eftirtektarverð hjarðhegðun fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband