Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Það var hrint mér í frímínútunum??????????

Það var hrint mér í frímínútunum í dag? Það var sagt mér í gær? Það var keyrt mér þangað í gær? Það var spurt mig í morgun? Allt eru þetta setningar sem ég hef heyrt, einkum úr munni krakka eða unglinga. Ég vil spyrja ykkur að því hvort þetta muni hugsanlega festast í málinu og líka hvort þeir hafi eitthvað til síns máls? Eins langar mig að spyrja ykkur hvort þið hafið tekið eftir að oft er eins og e sé að breytast í a, í talmáli. Dæmi: Venjulegt verður Vanjulegt. Blettur verður blattur.Kannski er þetta ekki svona sterkt en greinileg tilhneiging í þessa átt. Þetta má oft heyra t.d. í sjónvarpi.Sendið þið mér endilega ykkar skoðun á þessu elskurnar mínar.


Woody Allen, Mikael Niemi og Píkubær

Mýmörg dæmi eru um það í kvikmyndasögunni að tökustaðir hafi aukið hróður viðkomandi staða og lyft þeim í hæðir sem innfædda hafði aldrei dreymt um. Nú er Woody Allen gagnrýndur á Spáni fyrir að Barcelonaborg og Katalóníustjórn standa fyrir 10% af framleiðslukostnaði nýjustu myndar hans, sem gerist í Barcelona og verður án efa óður til borgarinnar fögru.Það er trú mín að spanjólarnir fái þetta margfalt til baka. En oft verður nú skammsýnin ofaná. Á landamærum Svíþjóðar og Finnlands er lítill bær sem heitir Vittula (Píkubær), og þaðan kemur rithöfundurinn og sagnamaðurinn Mikael Niemi. Hann ferðaðist lengi um Svíþjóð og lifði á því að segja sögur en debuteraði einungis fyrir fáum árum með skáldsögunni Rokkað í Vittula (populaarmusik fraan Vittula), að mig minnir í íslenskri þýðingu Páls Valssonar. Síðan hefur komið út bókin Svaalhaalet sem er allt annars eðlis.Báðar bækurnar eru frábærar og hvet ég ykkur eindregið til að lesa þær. Mikael er trúr sínum heimabæ, Vittula, og býr þar enn, hvað ég best veit.Og viti menn, gífurlegur túrismi hefur byggst upp í kringum bækurnar, og vill urmull af fólki koma og skoða sögusvið Rokkað í Vittula. Ég held að Rokkað í Vittula hafi selst í 750.000 eintökum í Svíþjóð einni, fyrsta árið eftir að hún kom út. Nú gera þessar bækur víðreist um heiminn og a.m.k. önnur hefur verið kvikmynduð. Segið þið svo að listin gefi ekki peninga í kassann, ekki bara fyrir listamanninn sjálfan, heldur fyrir samfélagið allt, og hana nú!

Fiskidagurinn mikli ---- Kaffisýning

Sat við eldhúsborðið í dag þegar síminn hringdi og mér var boðið að halda sýningu á Fiskideginum mikla á Dalvík 11.  ágúst. Ég tók skyndiákvörðun og sló til. Opna á föstudeginum 10. ágúst og ykkur er hér með öllum boðið á opnun sýningarinnar.Verð eingöngu með kaffiverk í ýmsum stærðum og verð sjálfur á gólfinu að vinna. Mér er sagt að í fyrra hafi komið 30.000 manns og öllum gefið að borða. Innfæddir opna hús sín og bjóða í súpu og kræsingar í boði út um allt í þessum 2.000 manna bæ. Öll heimili bæjarins hafa fengið fisk að gjöf sem þeir skreyta og skrifa svo ljóð á að eigin vali (frumsamin eða ekki) og þau hús þar sem súpa er í boði, skarta tveimur logandi kyndlum.Geri aðrir betur!

Þorvaldur í Síld og Fisk kenndi mér að fara vel með peninga, eða þannig

Fór einu sinni á sýningu á verkum Jóns Engilberts sem haldin var í Englaborginni. Hitti þar aldinn mann í gráum jakkafötum með rautt bindi. Einhvern veginn æxlaðist það svo að við tókum tal saman og fylgdumst að í gegnum alla sýninguna. Fór mjög vel á með okkur. Greinilegt var að hann var vel að sér í listum og gleymdum við okkur algerlega og vissi ég ekki fyrr en við vorum staddir úti á gangstétt. Greinilegt var að beðið var eftir gamla manninum, því stór svartur eðalkaggi beið fyrir utan og bílstjóri opnaði dyr. Gamli maðurinn leit beint í augun á mér og þakkaði mér samfylgdina og sagði:"Ferð þú vel með peninga? Ég horfði á móti en fljótlega niður á gangstéttina vitandi það að sú var nú ekki alltaf raunin. Gamli maðurinn  virðist hafa skynjað hugsanir mínar og hélt áfram:  "Ég á ekki við að þú megir ekki eyða peningum, peningar eru til þess að eyða þeim". Því næst seildist hann í innri jakkavasann tók upp fallegt brúnt leðurveski , opnaði það og við mér blöstu ótrúlega slétt seðlabúnt eins og nýkomin úr prentun. "Þetta er að fara vel með peninga, ekki böggla þá saman í vasanum, krumpa þá og skemma. Berðu virðingu fyrir þeim og farðu vel með þá". Að svo mæltu kvaddi hann mig með virktum og steig inn í bílinn og óku þeir á brott. Ég hafði ekki hugmynd um hver þessi maður var því við kynntum okkur ekki. Er ég opnaði Morgunblaðið nokkrum vikum síðar sá ég mynd af þessum manni við minningargrein. Það var minningargrein um Þorvald í Síld og Fisk. Ég hef reynt að fara að ráðum þessa djúpvitra manns hvað þetta varðar en eyðslusemin hefur nú ekki alltaf verið á sama plani.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband