5.11.2007 | 21:56
Ælugjald í Búlgaríu
Einu sinni fyrir margt löngu var ég í Búlgaríu með fjölskyldunni. Þetta var áður en járntjaldið féll. Þar kynntumst við hámenntuðum hjónum frá Austur-Þýskalandi. Þar sem þau voru ekki mjög fjáð og höfðu greinilega ekki efni á að borða oft úti, buðum við þeim nokkrum sinnum út að borða, enda ódýrt í okkar augum. Við bjuggum þá í Svíþjóð, þar sem við vorum við nám og vinnu. Þau gátu nú ekki dvalið lengi úti á kvöldin, þar sem þau þurftu að vera komin inn á hótel kl. 22.30 á kvöldin! Eitt kvöldið höfðum við verið úti að snæða og á eftir buðum við þeim heim á hótelið okkar upp á smá drykk fyrir svefninn. Vill þá ekki betur til en að konan verður eitthvað veik, líklega óvön að borða svona mikið og drekka. Reyndi ég strax að ná í leigubíl en öngvan bíl var að fá. Töluverður spotti var á milli hótelanna svo ekki kom til greina að ganga, enda konan í öngvu standi til þess og kl. nálgaðist hálf ellefu. Voru nú góð ráð dýr en heppnin var með okkur því í andyri hótelsins var staddur tyrkneskur rútubílstjóri, sem bauðst til að keyra okkur. Drifum við okkur út og upp í 60 manna rútu stem stóð á hlaðinu. Þegar Tyrkinn ók af stað gerðist konan veikari og byrjaði að æla og ældi út eina sætaröð. Ég man að ég hugsaði með mér: Þetta kemur til með að kosta skildinginn. Til að gera langa sögu stutta þá komumst við klakklaust að hóteli hjónanna og konan var nú farin að jafna sig nokkuð og kvöddum við þau þar. Er heim á hótelið okkar kom var komið að því greiða fyrir túrinn. Ég bjóst við hinu versta en Tyrkinn virtist hinn rólegasti. Tók ég upp veskið, sem var úttroðið af sænskum og dönskum tíköllum sem okkur hafði verið ráðlagt að hafa með okkur, því það var ekki svo algengt að Búlgararnir gætu gefið til baka, nema þá kannski í nammi eða öðru smálegu. Tyrkinn rétti fram höndina og ég byrjaði að tína fram tíkalla og hugsaði: Þetta verður mér dýrt. Þegar ég hafði rétt honum þrjá tíkalla, bugtaði hann sig og beygði og endurtók í sífellu: Teng jú verímöss, teng jú verí möss.......... Þessi ferð og hreinsun á sætunum kostaði sem sagt ca. 300 kr. íslenskar! Ég borgaði honum að vísu meira en málið fór nú ekki fyrir dómstóla svo ég slapp nú líklega ansi vel. Mér verður stundum hugsað til þessa greiðvikna Tyrkja þegar maður heyrir af samskiptum manna í hinum svokallaða ríkari hluta heimsins þar sem peningarnir eru oftar en ekki í aðalhlutverki.
Reiddist vegna ælugjalds" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.