Húsið beint á móti sólinni (endurtekin færsla)

Ég var einu sinni kennari á landsbyggðinni og leiðbeindi þar krökkum á ýmsum aldri.Auðvitað voru þau mismunandi langt komin í heimsspekinni en öll á leiðinni út í hið svokallaða þroskaða og hraða fullorðinslíf.Þeirra á meðal var 7 ára gömul stúlka sem hét Gréta,glaðlynd og hress en gat setið löngum stundum og hugað að sínu,horft dreymnum augum út um gluggann á kennslustofunni og gerði ég það að vana mínum að trufla hana sem minnst þegar sá gállinn var á henni.Hún var mjög skýr til svara og hafði einhvern veginn þann hæfileika að skoða hlutina í öðru ljósi og frá öðru sjónarhorni en flestir hinna krakkanna. Einu sinni fengum við heimsókn af manni í bekkinn ,sem varla er í frásögur færandi. Það var blíðskaparveður og ansi heitt í skólastofunni.Talaði hann um stund við börnin,spurði þau að heiti o.s.frv. Kom að því að hann vék máli sínu að Grétu litlu og spurði hana meðal annars að því hvar hún ætti heima. Gréta stóð upp af stólnum,gekk rakleiðis að glugganum,benti út og sagði: Ég á heima í húsinu beint á móti sólinni. Ekki hef ég séð Grétu í nokkur ár en það er mín einlæga von að hún búi enn í húsi, beint á móti sólinni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband