Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Frestun á Kalla Tomm hjá mér

Ég vann víst einhvern spurningaleik í gær og skilst að ég hafi fengið eitthvert kefli. Ég verð að fresta leiknum sem átti að hefjast kl. 21.30. Enda er annar leikur í gangi hjá Hlyni Halls kl. 22.00. Sorry folks.

Orkuveituallsnægtarborðið svignar af kræsingum

Orkuveita Reykjavíkur er ekki stofnun. OR er sameignarfyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga. Upplýsingalög gilda ekki um starfsemi fyrirtækisins. Svo hljómar hinn heilagi texti. Svínin eru jafnari en önnur dýr, eins og Orwell orðaði það. Sauðsvörtum almúganum, sem þó eiga fyrirtækið, varðar ekkert um hvað þessir háu herrar hafa í laun. Enda þola þau ekki dagsljósið. Sama gildir um lágmarkslaunin. Þau þola ekki dagsljósið. Þau eru svo skammarlega lág. Þau eru bara brauðmolar sem hrökkva af kræsingarborðum aðalsins, sem oftar en ekki hefur komist í stöður sínar vegna hollustu við misvitra og spillta stjórnmálamenn. Þau nægja ekki fyrir húsaleigu og mat. Börn fátæka fólksins norpa í kuldanum eins og litla stúlkan með eldspýturnar úr ævintýri H.C Anderssen. Þeirra hlutverk er að selja eldpýtur fyrir lítið en krókna samt í þessu gerspillta þjóðfélagi gulldrengjanna,sem þykjast vera að vinna í almannaþágu. Aftur á móti hef ég ekkert á móti því að fólk njóti góðra launa sem hefur unnið til þess á heiðarlegan hátt. Það sitja bara ekki allir við sama borðið. Allsnægtarborðið.
mbl.is Launin þola ekki dagsljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ælugjald í Búlgaríu

Einu sinni fyrir margt löngu var ég í Búlgaríu með fjölskyldunni. Þetta var áður en járntjaldið féll. Þar kynntumst við hámenntuðum hjónum frá Austur-Þýskalandi. Þar sem þau voru ekki mjög fjáð og höfðu greinilega ekki efni á að borða oft úti, buðum við þeim nokkrum sinnum út að borða, enda ódýrt í okkar augum. Við bjuggum þá í Svíþjóð, þar sem við vorum við nám og vinnu. Þau gátu nú ekki dvalið lengi úti á kvöldin, þar sem þau þurftu að vera komin inn á hótel kl. 22.30 á kvöldin! Eitt kvöldið höfðum við verið úti að snæða og á eftir buðum við þeim heim á hótelið okkar upp á smá drykk fyrir svefninn. Vill þá ekki betur til en að konan verður eitthvað veik, líklega óvön að borða svona mikið og drekka. Reyndi ég strax að ná í leigubíl en öngvan bíl var að fá. Töluverður spotti var á milli hótelanna svo ekki kom til greina að ganga, enda konan í öngvu standi til þess og kl. nálgaðist hálf ellefu. Voru nú góð ráð dýr en heppnin var með okkur því í andyri hótelsins var staddur tyrkneskur rútubílstjóri, sem bauðst til að keyra okkur. Drifum við okkur út og upp í 60 manna rútu stem stóð á hlaðinu. Þegar Tyrkinn ók af stað gerðist konan veikari og byrjaði að æla og ældi út eina sætaröð. Ég man að ég hugsaði með mér: Þetta kemur til með að kosta skildinginn. Til að gera langa sögu stutta þá komumst við klakklaust að hóteli hjónanna og konan var nú farin að jafna sig nokkuð og kvöddum við þau þar. Er heim á hótelið okkar kom var komið að því greiða fyrir túrinn. Ég bjóst við hinu versta en Tyrkinn virtist hinn rólegasti. Tók ég upp veskið, sem var úttroðið af sænskum og dönskum tíköllum sem okkur hafði verið ráðlagt að hafa með okkur, því það var ekki svo algengt að Búlgararnir gætu gefið til baka, nema þá kannski í nammi eða öðru smálegu. Tyrkinn rétti fram höndina og ég byrjaði að tína fram tíkalla og hugsaði: Þetta verður mér dýrt. Þegar ég hafði rétt honum þrjá tíkalla, bugtaði hann sig og beygði og endurtók í sífellu: Teng jú verímöss, teng jú verí möss.......... Þessi ferð og hreinsun á sætunum kostaði sem sagt ca. 300 kr. íslenskar! Ég borgaði honum að vísu meira en málið fór nú ekki fyrir dómstóla svo ég slapp nú líklega ansi vel. Mér verður stundum hugsað til þessa greiðvikna Tyrkja þegar maður heyrir af samskiptum manna í hinum svokallaða ríkari hluta heimsins þar sem peningarnir eru oftar en ekki í aðalhlutverki.
mbl.is Reiddist vegna „ælugjalds"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðismál eru herskylda láglaunamannsins

Ástandið í húsnæðismálum á Íslandi er náttúrulega mjög slæmt og hefur verið lengi og ég tala nú ekki um leigumarkaðinn. Fólk á hreinlega ekki fyrir leigunni því fólk á leigumarkaði er yfirleitt efnaminna fólk. Og svo unga fólkið sem tekið hefur allt of há lán þannig að í sumum tilfellum er markaðsvirði íbúðarhúsnæðis sem það hefur fest kaup á lægra en lánin sem hvíla á því. Þessu er öðruvísi farið t.d. á Norðurlöndum og "venjulegt launafólk" hefur efni á að búa sæmilega og á ekki á hættu að vera hent út hvenær sem er, sem því miður er oft raunin hér á Íslandi. Stefán Ingólfsson heitinn vinur minn, verkfræðingur,en hann lét mikið til sín taka í húsnæðismálum, sagði eitt sinn að kostnaður vegna húsnæðis mætti ekki nema meiru en 25% af ráðstöfunartekjum viðkomandi. Ég er ansi hræddur um að víða sé pottur brotinn hvað það varðar. Gott hjá Hlíf að hreyfa við þessu máli.
mbl.is Lágmarkslaun duga ekki fyrir húsaleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kóngapakkið og hinn jarmandi aðall

Er þetta nú ekki bara djók? Líklega er þetta nú bara púra bisness. Fataframleiðendur og hönnuðir hljóta að vera í samstarfi þarna við Vouge um að pranga svíndýrum flíkum inn á aðalinn í Bretlandi sem eltir gjarnan kóngafólkið eins og jarmandi kindur. Elísabet Bretadrottning ein af 50 glæsilegustu konum heims? Ég held ég verði að fara að panta tíma hjá augnlækninum mínum. Svo er nú svoldið skondið að orðið glæsilegur virðist eingöngu merkja að vera klæddur glæsilegum fötum(rándýrum), en þar komum við að smekknum, sem þúsundir manna um allan heim eru sveittir við að búa til fyrir okkur aumingjana sem höfum ekki vit á að klæða okkur rétt.

Ja hérna hér. Má ég þá frekar biðja um Möggu Þórhildi með stubbinn í munnvikinu.


mbl.is Vogue útnefnir Bretadrottningu sem eina af glæsilegustu konum heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðakstur í Hvalfjarðargöngum

Hraðakstur í Hvalfjarðargöngum er síendurtekin frétt. Leyfður hámarkshraði er 70km/klst og mældist meðalhraði lögbrjótanna 83km/klst, svo sem ekki mikið yfir leyfilegum hraða. Mælingin fór fram frá miðvikudegi til föstudags í sl. viku. Má kannski til sannsvegar færa að hættulegra sé að vera alltaf að fylgjast með hraðamælinum en að aka 10 km of hratt. Fróðlegt væri líka að fá uppgefið hlutfallið milli þeirra sem eru á leiðinni út á land og þeirra sem eru að flýta sér í bæinn. Hvort liggur mönnum meira á í sveitasæluna eða í stórborgina Reykjavík? Á hvaða tímum sólarhringsins eru lögbrotin flest? Fréttin segir manni ekki svo mikið nema nákvæmari uppl. berist. Svör óskast.
mbl.is 142 óku of hratt um Hvalfjarðargöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundarnir og kettirnir á Grettisgötunni bjóða góða nótt

Hundar og kettir

Hundarnir og kettirnir á Grettisgötunni bjóða ykkur góða nótt. Þeir ætla að biðja Guð að vaka yfir ykkur í alla nótt. Sérstakar franskar búlldóskar kveðjur frá Nathösju Alexöndru Presley. Kisan hans Tomma ætlar að vera á vappi í alla nótt. Þá sofum við róleg.


Hundategundin golden retriever og viðskiptaráðherra

Eftirfarandi stendur í sjónvarpsdagskrárkynningu Morgunblaðsins í dag, orðrétt:

"20.00 > Dýravinir  Guðrún Heimisdóttir kynnir sér hundategundina golden retriever og viðskiptaráðherrann, Björgvin G Sigurðsson. (2:24)." Þetta hljómar spennandi. Ætli sé um einhvern samanburð að ræða? Maður má ekki missa af þessu.


Meiddu manninn passlega mikið, þá sleppurðu

Ráðist var á mann í sumarbústað kl. þrjú í nótt. Svo sem engin ný saga. Gætu verið höfuðborgarbúar á ferð. Hver veit. Það sem vakti athygli mína var að tekið er fram í fréttinni að lögregla geti kært árásarmanninn ef meiðsli fórnarlambsins reynist alvarleg!!!!!!! Það má semsagt ráðast á mann og sleppa við kæru frá lögreglunni ef meiðsl eru ekki alvarleg!!! Hver á að dæma um hversu alvarleg meiðsl eru? Andleg eða líkamleg. Er til einhver lögskipaður mælikvarði þar um? Í mínum huga er alltaf alvarlegt þegar maður ræðst á annan. Skilaboðin mega ekki vera sú að ef þú meiðir passlega mikið, þá sleppurðu.

Ó nei, minn kæri.


mbl.is Líkamsárás í sumarbústað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 daga reykbindindi- Bréf til mín

Ég er búinn að reykja allt of lengi. Ég hef oft tekið pásu en aldrei lengur en 8 mánuði. Og þá einhvern veginn á hnefanum. Ég reykti aldrei meir en þegar ég var að vinna, sérstaklega í málverkinu. Það brunnu að vísu margir naglarnir upp án þess að ég reykti þá, en samt. Þegar ég var farinn að finna reykinn sogast niður í æðarnar í fótunum, með tilheyrandi sársauka og þeir voru farnir að bólgna, þá sagði ég við sjálfan mig: Nú er komið nóg Thorberg. Nú er mál að linni. Ef það tekur um það bil 10 mínútur að reykja eina sígarettu þá eyddi ég að minnsta kosti rúmlega þremur klukkutímum á dag, önnum kafinn við sogið, með tilheyrandi vanlíðan og sóðaskap. Alltaf að detta úr fókus við að tendra í rettu og það bitnaði á vinnuafköstunum. Núna dreg ég lífsandann af áfergju og afköstin aukast dag frá degi. Auðvitað veit ég að ég er ekki alveg sloppinn en er á meðan er. Og... ég finn ekki fyrir neinum fráhvörfum! Ég er ekki að predika yfir öðrum. Þetta geri ég fyrst og fremst fyrir mig og hef aldrei verið eins staðráðinn í að standa mig eins og nú. Og ekki á hnefanum. Mér líður einfaldlega svo miklu, miklu betur og er farinn að skoppa um í 101 eins og kálfur að vori. Besta leiðin til að ná upp til stjarnanna er einfaldlega að standa báðum fótum á jörðinni og viðurkenna bresti sína í von um betra og heilbrigðara líf. Áfram nú Thorberg. Ég stend með þér.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband