Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Fátækir og ríkir

Lífið er eintóm hamingja. Það finnst mér. Þrátt fyrir skitustingi hér og þar. Og einhvern skort á sumu stundum. Málið er að brosa framan í heiminn, vera glaðlyndur, þrátt fyrir mótbyr á stundum. Er það ekki? Samt er athyglisvert að samkvæmt þessari rannsókn er fólk hamingjusamara í ríkum löndum en fátækum. Það hefur eitthvað með peninga að gera. Þó svo að á öllum fréttamyndum sem maður sér frá fátækum löndum þá brosir fólk sínu breiðasta á sama tíma og við frá ríkari löndunum er grafalvarleg og með skeifu. Skil þetta ekki alveg en það er ekki von, því vitið er nú ekki meira en Guð gaf forðum. Að Danir séu hamingjusamastir allra þjóða kemur svo ekkert á óvart. Þeim er einfaldlega alveg sama um allt; Þeir eru LIGEGLAD, nema um það, að nýlenduþjóðin Íslendingar skuli vera svo miklu betri en þeir í viðskiptum. Þá verða þeir óhamingjusamir og bandbrjálaðir. Já, svona er nú lífið.
mbl.is Vaxandi hamingja í heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

It's all about money

Helstu ráðgjafar innan Repúblikanaflokksins mæla nú með Mitt Romney sem varaforsetaefni Johns Mcains, forsetaframbjóðenda flokksins. Hvers vegna? Jú, af því að hann er svo góður í að sníkja pening. Ekki vegna leiðtogahæfileika hans eða hæfni sem stjórnmálamanns, nei, hann er svo góður að ná í peninga. Hann sé í svo góðum tengslum við viðskiptalífið og Mormónakirkjuna! Eiga Mormónar fullt af peningum? Ég veit það ekki, það virðist vera. Svo er hann sagður hafa útlitið með sér og framkoma hans sæmi forseta! Þetta hefur ekkert breyst í Bandaríkjunum. It's all about money. Og svo eru lýtalæknar mjög ríkir í Bandaríkjunum. Leiðtogahæfileikar skipta engu máli. Það má fara á námskeið og læra þá. Og svo leggjast undir hnífinn ef nefið er of langt (eins og á Gosa þegar hann sagði ósatt) eða eyrun of stór eða karlmennskan ekki nógu mikil.............
mbl.is Líklegasta varaforsetaefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á góðum degi hjá Ásgeiri Lár

null

Á sýningu hjá Ásgeiri Lárussyni


Riðið á Gaddstaðaflötum

Ja nú verður aldeilis riðið í vikunni. Enginn dráttur varð á setningu mótsins, enda eru 1000 manns á staðnum. Það er gríðarleg stemning í liðinu og allt klappað og klárt fyrir klára. Þetta fer allt fram á Gaddstaðaflötum, svo það ætti að ríkja fjölbreytni í reiðmennskunni og auðvitað mjög áríðandi að allir verði í sem bestu standi. Þeir sem vilja ekki vera á Gaddstaðaflötum allan tímann geta þá riðið út og suður í þessari fögru sveit. Samkvæmt fréttinni hafa knapar æft stíft alla helgina, vonandi ekki of stíft, svo þeir standi sig nú vel í reiðmennskunni alla vikuna. Það ríður ekki við einteyming hvað ég skrifa hér, svo þið getið reitt ykkur á, að ég skrifa meira síðar. Og um fleiri áríðandi mál.
mbl.is Allt klárt fyrir klára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

From Shakespear to Moliére

Mr. Lafleur er hetja. Íslenska þjóðin fylgir honum í huganum. Þetta er ekkert Drangeyjarsund eða Viðeyjarsund. Þetta er þrekraun. Ekki hefur kappinn gefist upp og er þetta í þriðja sinn sem hann reynir. Það segir mér hugur að gangi þetta ekki núna, þá reynir hann bara aftur. Það hlýtur að boða gott að leggja upp frá Shakespeare Beach. "Kóngaríki fyrir hest". Kannski lendir hann svo á Moliére beach. Það væri gaman. Gangi þessum baráttumanni allt í haginn. Þess óska ég.
mbl.is Benedikt lagður af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öræfajökull kom í heimsókn í dag

Öræfajökull 2119m

Þessa mynd af Öræfajökli, málaði ég fyrir mörgum árum. Á myndinni eru hvorki fleiri né færri en 2119m (emm)(metri). Ég fann þessa mynd í dag og langaði að deila henni með ykkur. En Dagur Sigurðarson samdi einu sinni ljóð um heimsókn Öræfajökuls til Reykjavíkur. Fólkið hrópaði að honum á Lækjartorgi: Hundaþúfa! Hundaþúfa! Hundaþúfa! Hann var fljótur heim og hefur ekki komið til Reykjavíkur síðan þá. Þið vitið hvar hann er að finna. Góðar stundir.


Viva Espania

Það var aldrei spurning hvorir myndu vinna leikinn í kvöld. Þjóðverjar byrjuðu þó betur en það var úr þeim allur vindur eftir fimmtán mínútna leik. Spánverjar spiluðu sinn íðilfagra sendingarbolta og unnu mjög verðskuldað. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri en það var vel við hæfi að Torres skoraði sigurmarkið en hann átti mjög góðan leik. Það er varla hægt að telja einn leikmann öðrum betri í spænska liðinu í kvöld. Liðið spilaði sem ein heild og hvergi var veikur hlekkur. Nú er fjör á Spáni. Til hamingju Zordís bloggari, Kristinn Krói í Madríd og allir Spánverjar. Hvað íslenskir karlmenn taka sér fyrir hendur á næstunni , nú þegar Evrópumótinu er lokið, verður bara að koma í ljós. Kannski er það ekki gott fyrir suma veitingamenn að mótinu sé lokið. Ég held að Ólympíuleikarnir hafi ekki lengur sama aðdráttarafl og fótboltinn, en þeir eru jú á næsta leiti. Þar vantar liðsandann. LIÐIÐ MITT, eins og við segjum. En það er nú ekki svo langt í enska boltann. Þá rúllar allt í gang aftur.
mbl.is Spánn Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega spennandi

Vísindagæjarnir í CERN eru náttúrulega alveg ótrúlegir. Hugsið ykkur að möguleikar eru á að uppgötva nýjar víddir sem mannleg skynfæri hafa hingað til ekki getað numið!! Og "dökka efnið", þetta er spennandi. Eitt er víst að ég mun fylgjast grannt með þróun mála underground á landamærum Sviss og Frakklands eins og svo margir aðrir. Ótrúlega spennandi!!!! 
mbl.is Ekki hætta á ragnarökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæli þarft eða þegi

Þetta er enn eitt dæmið um hálffrétt á mbl.is. Blessaður maðurinn býður líf sitt til sölu. Hvað þýðir það? Er hann að selja eigur sínar? Er hann að selja sig sem þræl? Er hann að selja líf sitt í bókstaflegri merkingu, þ.e.a.s. má sá sem kaupir taka líf hans? Við viljum fá nákvæmari uppl. um þetta mál, við blankir smáborgarirnir. Moggamenn: Mæli þarft eða þegi.
mbl.is Lífið minna virði en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamingjudagar á Hólmavík fjalla ekki um brennivín

Það er einkennilegt hvað mínir kæru vinsælu bloggvinir þurfa sí og æ að blanda brennivíni inn í flestar sínar bloggfærslur. Auðvitað getur brennivín verið bölvaldur í lífi margra, það vitum við öll, meira að segja þeir sem eru ofurseldir því akkúrat núna. En að skrifa langar færslur um myndarlegar hátíðir sem haldnar eru víða um land og færslurnar fjalla að mestu leyti um brennivín, finnst mér keyrt úr hófi. Og að draga svo eina útúr og segja hana mjög svo myndarlega og saklausa, finnst mér smekklaust. Auðvitað er vín haft um hönd á flestum þessum hátíðum, ekkert síður á Fiskidögum en öðrum hátíðum. Sjálfur var ég á Hamingjudögum á Hólmavík sl. sumar með sýningu og þar fór að mestu leyti allt vel fram, enda mikið í þá hátíð lagt og af miklum myndarskap heimamanna. Þar hitti maður fólk alls staðar að á landinu, hlustaði á mergjaðar sögur úr munni aldinna Strandamanna og skemmti sér vel á allan hátt. Brennivín er drukkið um allt land á hverjum degi og ekki síst í henni Reykjavík, með tilheyrandi afleiðingum vegna misnotkunar á því. Við ættum frekar að mæta á þessar hátíðir "edrú" og sýna gott fordæmi og... njóta þess að vera til og... kynnast nýju fólki sem hefur unnið hörðum höndum að því að gera okkur dvölina sem ánægjulegasta.
mbl.is „Óhamingja“ á Hólmavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband