Dómsmálaráðherra í pungbrynju

Mikið eigum við góðan dómsmálaráðherra. Það er leitun að öðrum eins. Nýjustu fréttir herma að okkar ágæti ráðherra ætli að taka sér stöðu á Lækjartorgi um hverja helgi til verndar samborgurum sínum. Geri aðrir betur. Ég sem bý í miðbænum anda strax léttar. Frá Lækjartorgi hefur ráðherrann gott útsýni niður Austurstrætið og upp Bakarabrekkuna og inn Lækjargötuna. Ekki verður ráðist á stjórnarráðið né heldur seðlabankann meðan ráðherrann stendur á torginu( sem er eiginlega ekki lengur torg), enda mun hann klæðast áberandi búningi sem fæla mun alla ofbeldisseggi (karlmenn jafnt sem konur) á braut hið snarasta. Og ef einhverjum myndi detta í hug sú firra að ráðast að ráðherranum þá er ég hræddur um að sá hinn sami myndi fljótt hrökklast burt þegar hann mætir stinnu stálinu sem ráðherrann klæðist inn undir jakkafötunum. Og ef það dugar ekki til mun hann halda örstutta ræðu og mun þá sjást undir iljar ofbeldisseggja og annarra misyndismanna med det samme. Nú get ég hætt við fyrirætlanir mínar sem ég lýsti í blogginu mínu í ágúst og tek mér bessaleyfi að birta hér aftur fyrir neðan. Lengi lifi dómsmálaráðherra!

 

Pungbrynja og stálgalli----- Stál og hnífur

Eftir að hafa heyrt fréttir af næturlífinu í Reykjavík og ekki síst vegna þess að gönguleiðir mínar liggja í gegnum þetta átakasvæði, hef ég ákveðið að búa til eða kaupa eftirfarandi hluti: Stálhlífar á bæði eyru, skothelda nefhettu, skotheld dökk gleraugu, riddarabrynju til að nota ef ástandið er óvenju slæmt, algerlega skothelda pungbrynju, stálplástur fyrir munninn, gervihár úr stáli, og fullkominn stálbúning, sem ég get verið í innan undir jakkafötunum. Svo þegar ég fer úr þeim, hver veit nema ég ætti meiri séns í stelpurnar. Þessi vinna verður að fara í gang strax að lokinni verslunarmannahelgi, enda kannski meiri friður þá, þegar þjóðin staulast heim til sín á brauðfótum eftir stórkostlegt vinnuframlag um helgina, sem því miður sést ekki alltaf í hinni raunverulegu launavinnu þessa fólks.

ps. Ég verð auðvitað að hafa hníf í vasanum ef ég kem honum fyrir. Sem sagt: Stál og hnífur.


 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband