Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Frægir og óþekktir buffaðir í miðbænum og víðar.

Hver fjandinn er eiginlega í gangi hér í Reykjavík þessa dagana? Enginn gengur orðið óhultur um götur borgarinnar. Er það orðin staðreynd að lykilorðin í íslensku samfélagi eru: Öfund, hatur, græðgi, hroki, hraði og stjórnleysi. Klondyke? Ég bara spyr. Hvar er vináttan, kærleikurinn, auðmýktin, hógværðin og kurteisin? Ég spyr aftur.

Hamingjudagar í háloftum og af Leifi í Bjarnarfirði

Var með sýningu á Hamingjudögum á Hólmavík um daginn og minn var flottur á því, fór með einkaflugvél báðar leiðir og var það ógleymanlegt. Langt síðan ég hef séð landið okkar í svo mikilli nálægð og Hörður hjá Flugfélaginu Ernir (Örnum)? var góður leiðsögumaður. Þetta verður mér ógleymanleg helgi,allir boðnir og búnir að gera allt fyrir mig og veðrið betra en hægt er að biðja um. Það sem er nú kannski minnistæðast voru allar sögurnar sem ég fékk að heyra frá öldungum af Ströndum, hver annarri betri. Einn þeirra hafði nýlokið við fjórar frábærar sögur sem ég segi ykkur seinna og klykkti út með því að segja: En Thorberg minn, ef þú vilt heyra almennilegar sögur, þá skaltu tala við Leif í Bjarnarfirði!!!!!  og þangað er förinni heitið við fyrsta tækifæri.Já, fjársjóðirnir leynast víða, heldur betur.

Hitti Kristin Hallsson á öldurhúsi 1992

Hitti Kristin Hallsson á öldurhúsi í fyrsta skipti, að mig minnir 1992.Hafði að vísu fylgst með honum frá barnæsku og þá aðallega í gegnum Gufuna gömlu.Röddin hans hreif mig ungan og það breyttist ekki er árin liðu.Við tókum tal saman og spjölluðum margt og mikið drykklanga stund.Kom að því að hann spurði mig hvað ég gerði í lífinu og sagðist ég aðallega fást við myndlist og eitthvað við tónlist og leiklist. Kristinn spurði mig hvort það væri nú ekki hálfgert vesældarlíf hvað fjárhaginn snerti og hvort ég hefði nokkurntíma þegið styrk frá Ríkinu. Ég kvað svo ekki vera. Þá sagði Kristinn: "Eftir þetta spjall okkar sé ég að það býr eitthvað í þér ungi maður hvað listir varðar og þú átt fullt erindi í listasjóðakerfi Ríkisins eins og hver annar. Ég skal athuga hvað ég get gert". Kvöddumst við með virktum eftir nokkrar skálar. Svo liðu nokkrir mánuðir og hafði ég önglað saman aurum til að fara til Portúgal til að mála upp í eina sýningu eða svo og dvelja þar í 3 mánuði.Sá tími varð svo miklu lengri. Komið var fram í september 1993 og ég var á förum, þegar dettur inn um bréfalúguna bréf frá Menntamálaráðuneytinu undirritað af Kristni Hallssyni, þar sem Bergi Thorberg er veittur styrkur úr Félagsheimilasjóði???? nokkurs konar ferðastyrkur. Upphæðin var 30.000.Þús. og mig munaði mikið um aurana á þeim tíma. Sá gamli hafði ekki gleymt mér. Leiðir okkar lágu svo saman síðar nokkrum sinnum og sagði Kristinn að þetta hefði nú verið lítilræði, en ég þvertók fyrir það, sem satt var. Kristinn var einn af þessum minnistæðu mönnum sem orðið hafa á lífsleið minni. Blessuð sé minning hans.

Kona káfar á svertingja í Sundhöllinni

Fór með konu í Sundhöll Reykjavíkur í gær sem varla er í frásögur færandi, nema hvað, konan er ákaflega sjóndöpur. Ég letinginn synti ekki neitt en konan nokkrar ferðir. Þeir sem þekkja til Sundhallarinnar vita, að á bökkunum skiptast á svartar og hvítar flísar. Í lokaferðinni stefndi konan á svörtu flísarnar en fannst þær undarlega mjúkar viðkomu. Strauk hún þær upp og niður en komst fljótlega að því að þarna var manneskja á ferð, sem hvíldi við bakkann að loknu sundi. Reyndist það vera Afríkubúi sem brá auðvitað í brún en málið leystist fljótlega og var þá hlegið dátt. Þetta hefði auðvitað getað gerst í Afríku en þá með öfugum formerkjum. Er ekki lífið dásamlegt?

Íslendingar eru heimskir.En ekki nógu heimskir.

Kannski væri nær að forsendur í keppni um fegursta orðið á íslenskri tungu  væru aðrar.Í fyrsta lagi er orðið kærleikur komið beint úr erlendum málum(kærlighed) og þó innihald orðsins sé fallegt þá er orðið sjálft ekkert sérstaklega fallegt. Nær væri að taka rammíslensk orð eins og SÍMI eða GEYSIR eða jafnvel TÖLVA. Notum a.m.k. íslensk orð er við kjósum fegurðardrottningu íslenskra orða en ekki einhverjar útlendar slettirekur sem sí og æ rekast niður í hið ylhýra. 

Það sluppu ekki allir eins vel í Reykjavík í nótt eins og ég gerði forðum en ég bloggaði um það tveimur tímum áður en eyrað var bitið af.

Það kom mér ekki mjög á óvart  að heyra  um atburði næturinnar í miðbæ Reykjavíkur, afbitið eyra  og mikið blóð, það hef ég séð oft áður og lent í því sjálfur  að vera buffaður á Laugaveginum.Það  sem kom mér  á óvart var að tveimur tímum áður en þetta  skeði var ég  að blogga  um Laugaveginn og ofbeldið  sem fólk getur lent í  , í miðborg Reykjavíkur og tala þar af eigin reynslu. Viðurkennum það bara, það er eitthvað mikið að. Við verðum að setjast niður og ræða þessi mál og GERA svo eitthvað. Síðan gerist þessi hörmulegi atburður um hábjartan dag, í miðri Reykjavík, sem öll þjóðin veit nú af. Mín elskulega þjóð, tökum nú höndum saman og GERUM eitthvað. SAMAN.

Laugavegssaga- Bjargað úr klóm misyndismanna af "glæpamönnum"

Bý í 101 Reykjavík og var á leið heim fyrir nokkrum vikum,nokkuð seint.Gekk með veggjum til að forðast hið blindfulla dópaða lið sem drullar,mígur og brýtur flöskur fyrir utan heimilið mitt.Allt í einu mæti ég fimm manna gengi er gerir sig líklegt til að ráðast á mig. Byrja að dangla og sparka í mig að tilefnislausu.Sá ég sæng mína útbreidda, enda ekki mikill bardagamaður líkamlega og bjóst við hinu versta.Bað til Guðs um hjálp....og viti menn, hjálpin barst innan mínútu.Allt í einu riðlaðist hópurinn því mætt voru á staðinn nokkur kunnugleg andlit úr hinum svokallaða glæpaheimi Reykjavíkur."Hvað er á seyði hér" heyrði ég sagt og það skipti engum togum, það sást undir iljarnar á genginu fyrrnefnda og hvarf það eins og dögg fyrir sólu.Ekki þekkti ég "glæpamennina", en þeir vildu gefa mér bjór og sýndu mér mikla virðingu í alla staði. Afþakkaði ég bjórinn, sagðist bara vera á leiðinni heim en þakkaði hina óvæntu hjálp. Fékk ég nánast fylgd heim að dyrum og kvöddumst við með virktum. Menn ættu að fara varlega í að dæma samferðafólk sitt og greinilega er ekki allt sem sýnist.

Menningarnótt-2006- Texti við videoverk

Ég á á

á sem er blá

þar vil ég á

ánni minni hjá.

 

Ég á haga og allt

ég á heitt ég á kalt

ég á sætt ég á salt

ég á'etta allt.

 

 

Og ég lifi

og lífið finn

er við leggjum

kinn við kinn.

 

Og ég heyri

hjartsláttinn

hef 'ann með mér

inn í minn.

 

Lag og texti: Bergur Thorberg.

Flytjandi: Guðmundur Gissurarson 


Joseph Fouché- morðinginn frá Lyon

Er að lesa bók sem heitir Lögreglustjóri Napoleons eftir Stefán Zweig sem kom út í íslenskri þýðingu  Magnúsar Magnússonar,þess merka manns,árið 1944.Í bókinni eru hroðalegar lýsingar á lifshlaupi Joseph Fouché,einum af valdamestu mönnum sinnar aldar,svo hroðalegar að rétt er að vara viðkvæma við.Guðmundur vinur minn Hreiðarsson, stórleikari og skáld ,lánaði mér þessa bók,en hún hafði algerlega farið fram hjá mér, þó töluvert hafi ég lesið í gegnum tíðina.Lesningin er holl,að minnsta kosti fyrir mig,og sýnir svo ekki verður um villst,að Joseph Fouché hefur fætt af sér sporgöngumenn í hinum ýmsu löndum,mennina í skugganum,sem oftar en ekki bera hið raunverulega vald,þó almúganum sýnist annað Eins og Stefán Zweig segir í formála:"Allir ,sem geta hans í endurminningum sínum,rista honum níð.Napoleon á St. Helenu, Jakobínarnir: Robespierre, Carnot, Barras, og Talleyrand.Og sama gildir um alla franska sagnaritara, sem voru samtíðarmenn hans- konungssinna, lýðveldissinna og fylgjendur Napoleons. "Fæddur svikari, auðvirðilegur bragðarefur, háll höggormur, þindarlaus liðhlaupi, skríðandi njósnari, viðbjóðslegur flagari"- ekkert smánaryrði er undanskilið.Og Zweig heldur áfram lýsingum sínum á Fouché og segir að honum hafi tekist það eftir dauðann eins og honum tókst í lífinu að hylja sig á bak við aðra á leiksviði sögunnar. "Það kostar blátt áfram áreynslu að gera sér það í hugarlund, að það sé sami maðurinn, sem 1790 var prestakennari, 1792 kirkjuræningi,1793 kommúnisti og aðeins fimm árum síðar milljónaauðkýfingur og fimm árum eftir það, hertogi af Otranto". Joseph Fouché vann að mestu leyti í skugganum en lét aðra um bera hið sýnilega vald og skipaði sér ævinlega í þann flokk sem hafði meirihlutann og var snöggur að skipta yfir ef hann skynjaði að hann var að lenda í minnihluta. Minnir þetta okkur eitthvað á vissa stjórnmálamenn samtímans? Ég bara spyr. Meira um Fouché og sporgöngumenn hans síðar.

Húsið beint á móti sólinni

Ég var einu sinni kennari á landsbyggðinni og leiðbeindi þar krökkum á ýmsum aldri.Auðvitað voru þau mismunandi langt komin í heimsspekinni en öll á leiðinni út í hið svokallaða þroskaða og hraða fullorðinslíf.Þeirra á meðal var 7 ára gömul stúlka sem hét Gréta,glaðlynd og hress en gat setið löngum stundum og hugað að sínu,horft dreymnum augum út um gluggan á kennslustofunni og gerði ég það að vana mínum að trufla hana sem minnst þegar þessi gállinn var á henni.Hún var mjög skýr til svara og hafði einhvern veginn þann hæfileika að skoða hlutina í öðru ljósi og frá öðru sjónarhorni en flestir hinna krakkanna.Einu sinni fengum við heimsókn af manni í bekkinn ,sem varla er í frásögur færandi.Það var blíðskaparveður og ansi heitt í skólastofunni.Talaði hann um stund við börnin,spurði þau að heiti o.s.frv. Kom að því að hann vék máli sínu að Grétu litlu og spurði hana meðal annars að því hvar hún ætti heima.Gréta stóð upp af stólnum,gekk rakleiðis að glugganum,benti út og sagði: Ég á heima í húsinu beint á móti sólinni.Ekki hef ég séð Grétu í nokkur ár en það er mín einlæga von að hún búi enn í húsi,beint á móti sólinni.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband