Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Tveir til reiðar, annan á daginn, hinn á nóttunni.......

Lögregla virðist hafa búist við miklum ólátum á Landsmóti hestamanna, eftir fyrirsögn fréttarinnar að dæma. Sú varð ekki raunin, enda hestamenn upp til hópa rólyndismenn. Einn og einn peli hefur þó sjálfsagt verið í rassvasa, en það er engin nýlunda og hefur ekki skaðað marga gegnum tíðina, svo vitað sé. Það eru kannski helst hrossakaupin sem hafa æst menn upp og sumum hefur kannski fundist þeir kaupa köttinn í sekknum. Svo eru flestir með minnst tvo til reiðar, annan á daginn og hinn á nóttunni. Það hefur án efa róað margan reiðmanninn og er bara hið besta mál. Í fréttinni er talað um mál sem komu til kasta lögreglu annars staðar í umdæmi hennar og sé ég ekki að það komi Landsmóti hestamanna nokkurn skapaðan hlut við. Nú er helgin skollin á og þá er mjög áríðandi að menn ríði almennilega og virði svo fyrir sér hópreiðar inn á milli. Þannig vilja hestamenn hafa það. Og lögreglan líka, en í hennar röðum eru víst ágætir reiðmenn innan um. Hestamenn vilja ekkert bull eins og: Ríðum ríðum, rekum hann í sandinn............... hreint ekki........
mbl.is Rólegra á Landsmóti í nótt en búist var við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skökk og skæld á leiðinni til Reykjavíkur

Kannski var það ekki bara undirvagninn sem var skakkur? En það kemur nú ekki fram í fréttinni svo ég ætla nú ekki að hafa nein stór orð um það. Kannski var þetta bara fólk á leiðinni vestur til að mótmæla bágbornu ástandi vega á Vestfjörðum? Og ætlaði að nota rútuna í áróðursskyni? "Horfiði bara á þennan rúturæfil! Þá sjáiði hvernig bílarnir ykkur verða eftir tvö ár!" Kannski hefur hún verið notuð í mikilvægar áætlunarferðir og vegirnir hafa smátt og smátt brotið hana niður og skekkt hana og skælt? Aumingja rútan. Nú fær hún ekki að njóta framfaranna sem þó hafa orðið í íslenskri vegagerð. Hún fær ekki að keyra á malbikinu. Ekki lengur. Og kannski er enginn bíladoktor sem nennir að gera við hana? Og þá vitum við nú öll hvar hún endar. Í Reykjavík.
mbl.is Númerin klippt af hrörlegri rútu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskulegt, ómannúðlegt, hrokakennt, skammarlegt

Mér þykir það ekki skrýtið að ítalska lögreglan hafi verið hissa þegar henni var afhentur þessi "stórhættulegi glæpamaður". Ég veit eiginlega ekki hvaða orð á að nota yfir þessa embættisfærslu. Hún er a.m.k. heimskuleg, ómannúðleg og hrokakennd. Íslenskir afdankaðir stjórnmálamenn og embættismenn að spila sig stóra í alþjóðasamfélaginu. Þvílík stórmennska! Og svo kemur yfirklór sem er ekki sæmandi nokkru stjórnvaldi og má leita nokkuð víða til að finna eitthvað í líkingu við þetta. Skammarlegt fyrir íslensku þjóðina, svo ekki sé meira sagt.
mbl.is Ramses farinn af flugvellinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerum eitthvað núna

En hvað ég er sammála Noel í þessu máli. Sambærilegir glæpir eiga eftir að aukast hér, veriði viss. Við getum þó gert ýmislegt til að sporna við þessum glæpum. Gerum það núna, áður en það verður of seint.
mbl.is Gallagher: Skíthælar að yfirtaka Bretland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jakob og kaupmennirnir

Það er afskaplega undarleg skipulagsvinna að búa til og endurnýja götumyndina við Aðalstræti á mjög svo myndarlegan hátt og stefna því svo öllu í voða með að skella niður stórhýsi, sem gleypir að miklu leyti það sem nýbúið er að gera. Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á Jakobi Magnússyni. Hann er dugmikill og hefur látið verkin tala en einhvern veginn hef ég aldrei áttað mig á því, hver hans raunverulega skoðun er á hinum ýmsu málum. Má af því tilefni nefna hið pólitíska brölt hans gegnum árin. Fyrir hvað stendur Miðborgarstjórinn? Gaman væri að fá að vita það. Ég segi nú bar sisona.
mbl.is Kaupmenn ævareiðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver verður næstur í hakkavélina?

Nú á að reyna aftur. Búið að ganga frá Baugsmönnum og þeir komnir úr landi með allt sitt. Málið gegn Jóni Ólafssyni og félögum búið að vera í rannsókn til fjölda ára og nú er gefin út ákæra, korteri eftir að Baugur hefur selt allar eignir sínar á Íslandi. Tilviljun? Það held ég ekki. Jón og Jón eru miklir athafnamenn sem sýnt hafa dugnað sinn á mörgum sviðum. Jón Ásgeir ásamt föður sínum lækkaði matvælaverð svo um munaði á Íslandi og Jóni Ólafssyni hefur tekist, það sem engum hefur tekist áður: Að selja íslenskt vatn til útlanda í stórum stíl. Þetta hefur vakið upp marga öfundarmenn. Þeir hafa skapað miklar tekjur inn í þjóðarbúið og brotið upp einokunina, sem ríkti á svo mörgum sviðum,en hafa líklega troðið á tær gamalla kolkrabbamanna og Engeyjarættarinnar, eða hvað þær heita nú allar saman, og sem misst hafa spón úr aski sínum. Ég veit nú ekki betur en að Jón Ólafsson hafi greitt inn á væntanlega skattaskuld sína, ef kæmi í ljós síðar, að hann skuldaði skatt. Og samkvæmt Ragnari Aðalsteinssyni lögfræðingi hans hefur honum þegar verið refsað fyrir þessi brot og þ.a.l. ekki hægt að refsa honum aftur fyrir sömu brot. En Það er ekki nóg fyrir dómsmálaráðherra og hans fylgisveina. Nei: Það verður helst að koma þessum mönnum í fangelsi. Þeir hafa komið við kaunin á valdaklíkunni, sem ráðið hefur öllu hér á landi í áratugi. Er nema von að þessir menn flytji úr landi. En Jóhannes í Bónus, þann mikla frumkvöðul, tókst þeim ekki að knésetja og er hann á leiðinni í mál til að fá leiðréttingu sinna mála. Svo er sérkennilegt að embættismenn sem staðnir hafa verið að mjög svo vafasömum embættisfærslum og farið ansi frjálslega með fé almennings í þessum málabarningi, Þeir hafa ekki þurft að taka neina ábyrgð á gjörðum sínum. Hættiði þessari vitleysu. Ef jafnt gengi yfir alla, þá er nokkuð ljóst að ansi margir mættu mæta í réttarsal, til að verjast ákæruvaldinu.
mbl.is Ákærður fyrir skattalagabrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórbergur og tvítólan

Jahá. Nú held ég að sé kominn tími til að koma sér upp á háaloft  og lesa Þórberg. Fara svo niður í kjallara og lesa hann aftur, með viðkomu á miðhæðinni. Getur maður bara verið alles í dag? Karl og kona og það sem maður verður, ef maður er hvort tveggja? Tvítóla? Labbað svo í næsta sæðisbanka, fengið sæði, og sprautað því í sig heima hjá sér. Sem sagt, nánast sjálfum sér nógur? Valið sér svo bara það kyn sem manni hugnast hverju sinni í ástarlífinu? Ja, þetta er athugandi....... fyrir suma.
mbl.is Karlmaður fæðir dóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Portúgal verður stærra en Spánn

Ég vona svo sannarlega að gulldrengurinn geti nú farið að njóta sólarinnar í Madríd, orðið gullbrúnn og gimsteinum hlaðinn. Nú er rétti tíminn að taka við kóngsríkinu af Beckham. Viktoría verður bara að láta sér nægja súr epli á næstunni. Og United menn verða bara betri fyrir bragðið. Sanniði til. Þó mér sé ekkert um það gefið. Spurs eru náttúrulega alltaf bestir. Jafnvel þó að United menn séu að pissa utan í Berbann okkar. Hann er a.m.k. ekki farinn enn. Svo getur þetta orðið til þess að að Spánverjar líti ekki eins mikið niður á Portúgali í framtíðinni. Og það er vel.
mbl.is Botn í mál Ronaldo?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verð á Íslandi hrópa að mér : "Komdu og sjáðu hvað ég er hátt".

"Verð á olíu daðrar við 145 dali tunnan". Hvers konar fyrirsögn er þetta eiginlega? Ég botna ekki neitt í neinu. Eru verð farin að daðra? Og Það við dali? Verð á bensíni daðrar við 180 krónur líterinn? Verð á saltkjöti daðrar við þrjátíu  þúsund krónur tunnan! Verð í íslenskum búðum daðra ekki við mig. Nei. Þau hrópa að mér: Komdu og sjáðu hvað ég er hátt!
mbl.is Verð á olíu daðrar við 145 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún: Farðu í málið strax !

Útlendingastofnun þvær hendur sínar eins og Pílatus forðum, í máli Paul Ramses. Nú verður líklega eiginkonu Ramses einnig vísað úr landi. Þetta er ekki sæmandi okkur Íslendingum að hanga á einhverjum lagabókstöfum í þessu tilfelli. Stjórnvöld eiga hreinlega að grípa inn í þetta mál, afturkalla þennan gjörning og bjóða þessa fjölskyldu velkomna til Íslands. Maðurinn hefur starfað að íslenskum verkefnum í heimalandi sínu, á hér eiginkonu og mánaðargamalt barn og óttast um líf sitt verði hann að snúa aftur til Kenýa. Hann hlýtur að flokkast undir pólitíska flóttamenn og að hanga á því að hann hafi komið við á Ítalíu á leið sinni hingað, er bara lítilmannlegt. Á sama tíma og allir þegnar innan Evrópusambandsins geta dvalið og unnið hér að vild, rekum við þennan pólitíska flóttamann burt. Það er ekkert mál fyrir stjórnvöld að kippa þessu í liðinn og sýna þannig í verki mannúð og manngæsku og fá í leiðinni fullt af góðum prikum í kladdann. Það er nóg af þeim slæmu þar fyrir. Ingibjörg Sólrún: Gerðu nú eitthvað í málinu og það srax!
mbl.is Eiginkona Ramses ólöglega í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband