Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Til hamingju Hafnarfjörður

Þetta var nú bara alveg frábært hjá Hafnfirðingunum. Þeir spiluðu fótbolta eins og þrautþjálfaðir atvinnumenn og áttu sín færi þó þeir bökkuðu á stundum. Það er auðvitað allt annað að spila fótbolta við svona góðar aðstæður miðað við það að spila hérna heima. Ég er stoltur af strákunum í FH, og ég er enginn FHingur. Ég hef aldrei séð íslenskt félagslið spila svona góðan bolta á erlendri grund við svo gott lið, sem Aston Villa vissulega er. Til hamingju Hafnarfjörður.
mbl.is Aston Villa og FH skildu jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús, bíll og framapot

Það er víðar en á Íslandi sem lýðurinn ærist yfir árangri sinna manna. Hús og bíll Takk!! Fyrir brons á Ólympíuleikum! Og sjálfsagt ýmislegt fleira. Þetta er í fyrsta skipti sem Afgani vinnur til verðlauna á Ólympíuleikum og er hann orðinn algjör þjóðhetja í heimalandi sínu. Sjálfsagt að gera vel við kallinn. Öll þurfum við hetjur okkur til fyrirmyndar, virðist vera. Hetjudýrkun getur þó auðveldlega farið út í öfgar og þekkt er þegar misvitrir stjórnmálamenn nota fólk sem unnið hefur einhverja hetjudáð, pólitík sinni til framdráttar. Frægt er þegar Jesse Owens sigraði draumaprins Hitlers í langstökki á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Þar hafði Hitler ætlað að sýna fram á yfirburði hins aríska stofns, en varð ekki kápan úr því klæðinu. Sumir hafa verið að gagnrýna það, að mest öll ríkisstjórnin hafi verið á sviðinu á Arnarhóli í gær og mér finnst þeir hafa ýmislegt til síns máls, þó mér sé eiginlega skítsama. Stjórnmálamenn hafa einstaka hæfileika til að gera sig hlægilega í framapoti sínu. En þeim virðist alltaf vera fyrirgefið það, a.m.k. á Íslandi.
mbl.is Konunglegar móttökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beita fyrir feitustu viðskiptavinina

Nostalgían hleypur upp í manni þegar maður minnist þess, að hafa farið með föður sínum í margar af bestu laxveiðiám landsins, þegar maður var barn og unglingur. Oftast kostaði það nú ekki mikið að fá að renna fyrir lax og stundum var leyfið veitt eingöngu fyrir vinskap við bændur eða greitt fyrir veiðiskapinn með öðrum greiða. Semsagt einhvers konar vöruskipti. Þetta er löngu liðin tíð. Nú er laxinn bara fyrir stórlaxa. Banka og fjármálamenn. Sem nota laxveiðina sem beitu fyrir feitustu viðskiptavini sína. Spilling í þessum efnum hefur líka náð til Ríkis og Borgar (Reykjavíkurborgar), eins og dæmin sanna. Mér tókst einu sinni fyrir nokkrum árum að kaupa mér veiðileyfi í Rangánum. Blöskraði mér þar græðgi manna í veiðinni og var engu líkara en menn væru staddir á bullandi vertíð, þar sem bjarga þurfti verðmætum á sem skemmstum tíma. Menn gáfu sér engan tíma til að njóta þess að vera úti í fallegri náttúrunni heldur stóðu í ánni allan daginn með brjálæðisglampa í augum. Mér er það einnig minnisstætt að það átti að múta mér úr ánni síðasta daginn ( ég átti þrjá daga), vegna þess að Göran Person forsætisráðherra Svíþjóðar var í heimsókn á Íslandi og hann og Dabbi ætluðu að veiða í ánni. Ég átti einmitt eftir að veiða bestu svæðin þennan dag og vildi ekki sleppa því, og gaf mig hvergi. Fékk ég skömm í hattinn fyrir að leggjast ekki á hnén og veita þeim aðgang að ánni. Síðan þá hef ég ekki rennt fyrir lax og sakna þess ekki. Lúxusinn á bökkum áa er orðinn svo yfirgengilegur (t.d. í veiðihúsunum), að manni bara blöskrar. Enn og aftur eru það peningarnir sem ráða ferðinni. Í laxveiði, sem og í öðru. Það held ég nú.
mbl.is Laxveiði slær öll met
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaninn við sama heygarðshornið

Bandaríkjamenn hafa greinilega uppgötvað það eins og við Íslendingar að "Gott silfur er gulli betra". Það er alveg á hreinu.
mbl.is Unnu Bandaríkjamenn silfrið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágmarks flugfélag

Það hriktir eitthvað í stoðunum hjá Iceland Express þessa dagana. Ekki nóg með að seinkanir séu algengar og ekki bara út af bilunum, heldur selja þeir orðið rándýra miða. Ég þurfti að borga miða fyrir dóttur mína frá London til Reykjavíkur (sem sagt aðra leiðina), var hann rándýr og ekki í þeim lágprísanda sem þeir lögðu af stað með í upphafi. Í þeirra sporum myndi ég fara að skoða þessi mál öll alvarlega, því þessi markaður er mjög viðkvæmur. Það er nefnilega hægt að fljúga með öðrum. Ekki satt?
mbl.is Sólarhringsbið á Kastrup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrr má nú rota en..............

Mikið rosalega hafa þessir menn verið svangir!! Það er bara pizza, Hlöllabátar og Kentucky Fried!!! Fyrr má nú rota en dauðrota!! Þeir hafa náttúrulega verið alveg búnir á því eftir allt þetta át og þurft að fá sér DVD til að slappa af yfir í sófanum. Eina góða og krassandi glæpamynd. Já, það er misjafnt hvað manneskjurnar fást við á nóttunni. Ég lét mér nú bara nægja að laumast í ísskápinn um tvö-leytið.
mbl.is Innbrotahrina á höfuðborgarsvæðinu í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða starfssemi?

Þið fyrigefið kæru samlandar, en hvaða starfssemi fer fram í Heilsuverndarhúsinu við Barónsstíg í dag? Er búið að selja húsið? Ég hef einhvern veginn alveg misst af því hvað er að gerast þar núna. Ég man að ég fór með dóttur mína í ungbarnaeftirlit þangað á sínum tíma. Þetta er mjög sérstakt hús og hefur einhvern veginn höfðað til mín gegnum tíðina. Getur nokkur svarað spurningum mínum?
mbl.is Starfsmenn hlunnfarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagurinn í dag er dagurinn þeirra

Það er vitað mál að ef menn ætla sér að ná langt á einhverju sviði, þá gerist það ekki af sjálfu sér, heint ekki. Auðvitað má deila um það hversu langt eigi að ganga fyrir eigin metorð og þá sérstaklega ef því er stjórnað af einhverjum öðrum en einstaklingnum sjálfum. Það sem mestu máli skiptir er að halda ró sinni þó mikið sé lagt í og týna ekki sjálfum sér í eltingaleik við veraldleg gæði. Stjórnvöld víðs vegar um heiminn hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir þeim verðmætum sem liggja í því, að eiga einstaklinga eða hópa í fremstu röð. Gildir þá einu á hvaða sviði það er. Við Íslendingar eigum alla möguleika til að ná langt á mörgum sviðum, þrátt fyrir smæð okkar, en þá þarf að hlúa að þeim sem hafa viljann og getuna til þess. T.d. ef Íslendingur nær langt á einhverju sviði verður hann ósjálfrátt fyrirmynd annara og ekki síst ungs fólks, og er í leiðinni að auka hróður Íslands í veröldinni, sem getur skilað ómældum verðmætum inn í þjóðarbúið. En það þekkja allir afreksmenn, að þá þarf að færa ýmsar fórnir, og það er ekki á allra færi. Þetta þekkja t.d. handboltastrákarnir okkar og hafa sýnt það á eftirminnilegan hátt. Dagurinn í dag er dagurinn þeirra.
mbl.is Dýr voru Ólympíugull Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram með smjörið

Jæja, loksins er farið að LOGA almennilega í KRingum. Og feta þeir þar með í fótspor stúlknanna í KR. Mótið er ekki búið og smá von um að viðunandi árangur náist, eftir mjög svo slaka byrjun. Það býr miklu meira í þessu liði og vonandi kemur það í ljós í næstu leikjum....... og..... á næstu leiktíð.
mbl.is Logi: Kærkomin þrjú stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira svona!!!!

Það var ekki leiðinlegt að labba niður Skólavörðustíginn í kjölfar strákana og sjá gleðina og stoltið skína úr hverju andliti. Þarna voru samankomnar margar kynslóðir að hylla drengina og fylgdarlið þeirra og sáust tár á hvarmi, gleðibros og heyra mátti gleðihlátur og hvatningaróp. Einlæg barnsaugun horfðu í lotningu á goðin sín og örugglega voru þarna stjörnur framtíðarinnar í fylgd með foreldrum, bræðrum, systrum og öfum og ömmum. Ég hef sjaldan upplifað jafn fallega stund og svo tók við gleðistund á Arnarhóli og Ingólfur stóð á hólnum og horfði stoltur yfir afkomendur sína. Ógleymanlegt. Veðrið var yndislegt, eins og pantað fyrir þessa gleðistund. Að lokinni athöfninni laumuðumst við inn á matsölustað og borðuðum létta máltíð og gengum svo heim í blíðunni. Ég væri alveg til í að upplifa svona stund aftur fljótlega!!! Þetta þjappar þjóðinni saman svo um munar og hópurinn allur minnti svo um munaði á eina stóra, samheldna fjölskyldu. Við viljum meira svona!!!! Alveg frábært!
mbl.is Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband