Fallegt er það á prentuðu máli, ekki vantar það. En hvernig verður með dúið? Verður þetta í anda orðanna "to do or not to do"? Ég er ekki viss. Ef við lítum aðeins á hvernig stjórnvöld hafa komið fram á sviðið að undanförnu og ég ætla bara að benda á eitt atriði. Stjórnvöld hafa komið fram dag eftir dag á undanförnum vikum og aðalmálið hefur verið að koma í veg fyrir misnotkun á rétti til atvinnuleysisbóta. Blaðamannafundur með stóru béi var boðaður fyrir nokkru og þar voru sko topparnir mættir: Félagsmálaráðherra, lögreglustjóri og forstjóri vinnumálastofnunar. Þar gerðu þeir fjálglega grein fyrir því að hart yrði tekið á misnotkun atvinnuleysisbóta. Maður stóð upp eftir fundinn með galopinn munninn og hafði á tilfinningunni að það væri líklega atvinnulausum að kenna hvernig ástandið væri á Íslandi í dag. Það skein í gegn að fjölmargir atvinnulausir nenntu hreinlega ekki að vinna eða ynnu svart til að svindla á kerfinu. Nú skyldi sko tekið á því. Skrýtið að þeir skyldu ekki líka taka á þeirri misnotkun sem hefur viðgengist hér á landi um árabil, sem felst í því að fólk í sambúð hefur skráð sig á sitt hvorum staðnum til að koma betur út fjárhagslega og þar hafa margir, jafnt "háir sem lágir", verið viðriðnir. Fólki hefur endalaust verið refsað fyrir að vera gift, þó svo að það sé eitt af þeim gildum sem þjóðfélag okkar er byggt á og okkur innprentað frá barnæsku af þjóðkirkjunni og stjórnvöldum. Dag eftir dag hefur síðan verið hamrað á því af stjórnvöldum, að það skuli sko komið í veg fyrir misnotkun á kerfinu og endalaust koma fram tillögur hvernig má koma helst öllum öryrkjum út á vinnumarkaðinn af því að þeir eru svo þungur baggi. Vel á minnst: Það er enginn vinnumarkaður! Ég skil ekki svona forgangsröðun, allra síst frá svo kallaðri vinstri stjórn. Á sama tíma og örfáir glæpamenn í skjóli stjórnvalda, hafa lagt Íslenskt þjóðfélag í rúst, þá dynja þessar fréttir á þjóðinni og maður hefur á tilfinningunni að það sé stutt í það að þetta fólk sé kallað algerir aumingjar, sem nenni ekki að vinna og geri mest lítið annað en að svíkja út úr kerfinu og svindla. Á meðan ráðist hefur verið á "sauðsvartan almúgann", sem á varla fyrir matnum sínum, hafa glæpamennirnir fengið frið. Ég mæli ekki með misnotkun á "kerfinu", en fyrr má nú rota en dauðrota. Meðan hamrað er á "misnotkun" upp á einhverjar hundruðir milljóna, þá blasir við gjaldþrot íslensku þjóðarinnar upp á fleiri hundruð milljarða, ef ekki þúsundir. Ekki voru það atvinnulausir og öryrkjar sem stofnuðu til þeirrar skuldastöðu sem íslenska þjóðin er í. Það eru ekki einu sinni til peningar til að halda uppi almennilegri löggæslu til að vernda saklausa borgara þessa lands. Fólk er rænt, barið miskunnarlaust niður, oftar en ekki nær til ólífis og dómskerfið lafir máttlaust yfir þess konar glæpum. Og það læðist að manni sá grunur að kerfið komi líka til með að hanga máttlaust yfir glæpum hinna svo kölluðu útrásarvíkinga. Hvers konar þjóðfélag er þetta sem við lifum í? Geta stjórnvöld svarað því? Vitiði það, að ég get hreinlega ekki skrifað meir að sinni. Ég geng um með sorg í hjarta og horfi á fólk hreinlega veslast upp, verða eignalaust, ef það hefur þá átt nokkuð fyrir, börnin okkar skjálfa af hræðslu og þeirra bíður ekki fögur framtíð full af fyrirheitum eins og ætti að vera. Svo ég segi það hreint út: Ég skil ekki bullið í stjórnvöldum, ég skil ekki hugmyndafræðinga ríkisstjórnarinnar, ég skil ekki forgangsröðunina. Ekki ætla ég að gerast spámaður en það kæmi mér ekki á óvart að bylting væri á næstu grösum á landinu okkar fagra. En það virðist vera klæðskerasaumað fyrir suma en en ekki fyrir "sauðsvartan almúgann".